Monday, January 14, 2008

Andleysi

Það hittir svo skemmtilega á, að loksins þegar besti bloggari landsins ákveður að leyfa þjóðinni að njóta skrifa sinna, þá er bara andskotann ekkert til að skrifa um. Áður en ég tók þessa síðu í gagnið, þá var ég svo uppfullur af hugmyndum að einhverju til að skrifa um, að ég átti erfitt með að festa svefn af þeim sökum. En núna dettur mér fjandakornið ekki neitt í hug. Bara ekki dropi ! Stærstu fréttirnar í fjölmiðlunum þessa stundina eru að eitthvert sílikon sveppasmettið í Ameríku hafi drukkið íslenskt vatn í fangelsi, að einhver hafi nennt að gista á Hótel Keflavík og að löggan á Íslandi hafi mikið að gera... hvernig í déskotanum er hægt að blogga um slíkt ?
Þá er ekkert annað að gera en að tala um sjálfan sig.
Það er reyndar fátt sem mér dettur í hug að skrifa um sjálfan mig. Ég er í einhverju leti stuði þessa dagana. Ég hef ekki ennþá nennt að setja upp hillurnar sem konan er búin að nöldra lengi í mér um að koma upp. Ég hef ekki ennþá nennt í ljós, sem ég hef ætlað að gera í marga mánuði. Ég hef ekki ennþá hrist af mér slenið og dregið einhvern með mér í badminton, eins og ég var búinn að ákveða fyrir löngu síðan. Óttarlegt andleysi er þetta eiginlega.. maður hljómar bara eins og Þórður sjóari (fyrir þá sem ekki vita það, þá er Þórður sjóari sjúklega þunglyndur hugarburður sjálfs míns...karakter sem ég bjó til fyrir mörgum árum og gaman er að bregða fyrir sig á ákveðnum stundum..hann er klikkaður í skapinu, og sauðheimskur).
Ég er reyndar sannfærður um að lífsorkan og ofvirknin banka uppá hjá mér von bráðar...það styttist í að maður haldi stórt pub-quiz hérna á Akureyri, og ef ég þekki sjálfan mig rétt, þá á ég eftir að verða duglegur við að finna mér eitthvað að gera..ég er vanur að sjá til þess að ég hafi brjálað að gera...og þannig vil ég líka hafa það.

Jæja.. nóg í bili.. ég kem með aðra færslu síðar í kvöld, ef andinn kemur yfir mig..

Insjallah..Carl Berg

3 comments:

Anonymous said...

Bið að heilsa Þórði.

Ef hefur ábendingar vegna daglega.blog.is eru þær vel þegnar.

Anonymous said...

já , værir þú til í að endurskrifa fyrir mig síðasta komment ? "bara svona að ganni" :)

Bóla

Óli Sindri said...

Ég treysti mér ekki í vísnasamkeppnina. Hagyrðingar (fleirtalan af hagyrðing, ekki hagyrðingur) eru ekki mín sterkasta hlið og rímorðin eru vonlaus. Ég verð því að sætta mig við að verða af snyrtivörunum, mér til mikillar ógleði.

Hins vegar fagna ég bloggframtaki þínu heilshugar.