Saturday, January 19, 2008

Strætóferð

Skírnir Freyr vakti mig í "morgun" með þeim orðum að við þyrftum að drífa okkur út, til að fara í gula strætóinn. Hann hefur alveg eintaklega gaman af því að fara út í strætó þessi kútur. Það var ekki að spyrja að því, að ég reif mig bara á lappir og ákvað að verða við þessari bón...eða þessari skipun..eftir því hvernig á það er litið. Mamman, Pabbinn og Skírnir klæddu sig öll upp í kuldaföt og svo var haldið með kerruna niður í bæ og fyrsti strætóinn tekinn....eitthvað út í bláinn. Skírnir ljómaði svo í ökuferðinni að það var ekki hægt annað en að dást að því. Hann tilkynnti reglulega, hátt og snallt yfir allan vagninn, þegar farþegar yfirgáfu vagninn eða nýjir bættust inn. Að sjálfsögðu hermdi hann eftir hljóðinu í vaginum allan tímann, og það var augljóst að það var hann sem stjórnaði þessari stætóferð...ekki vagnstjórinn.

Eftir að hafa tekið hring með strætó, tók við langur göngutúr uppá brekku og heimsóttum við ömmu í Rauðu og fengum hjá henni kaffisopa. Skírnir tróð í sig konfekti og ávaxtahlaupi, svo miklu að þegar hann fékk sér mjólkursopa, þá sullaðist það út um allt, einfaldlega af því að það komst ekki meira fyrir í munninum á honum. Eftir stundarstopp hjá ömmu var haldið heim á leið og farið heldur hratt yfir. Við hlupum niður alla brekkuna með tilheyrandi rallý hljóðum og látum, og enduðum ör-þreytt í ganginum heima hjá okkur, nú rétt fyrir stundu. Það var lítill og þreyttur snáði sem sofnaði í fanginu á mömmu sinni með Liverpool-pelann uppí sér, núna rétt áðan.

Annars styttist í að við Haukur förum til Liverpool og sjáum þar liðið okkar taka Sunderland í kennslustund, og erum við farnir að hlakka talsvert til. Það er jafnvel von á því að Odda mágkona kíki í heimsókn til henna Rósu minnar á meðan, og sjái til þess að hér verði allar reglur haldnar og enginn fíflagangur á meðan.

En nú styttist leik íslenska landsliðsins í handbolta, og ef marka má rödd þjóðarinnar þá er það eingöngu formsatriði að spila þennan leik, við erum svo gott sem búinn að sigra. Ég er hóflega bjartsýnn og það kæmi mér ekkert á óvart þó að við skitum uppá bak og töpuðum þessum leik. Það kæmi mér heldur ekki á óvart þó við yrðum í neðsta sæti í þessum riðli og liðið kæmi býsna skömmustulegt heim af þessu móti, með öngulinn í rassinum...

Jæja..það biðja allir að heilsa að norðan, og fólk er vinsamlegast beðið um að kvitta fyrir sig, heimsæki það síðuna á annað borð...annað þykir argasti dónaskapur og verður ekki liðinn til lengdar!!!

Carl Berg

P.s: Mola dagsins fær hún Amma mín í "Rauðu"..: Láttu þér batna sem fyrst.

2 comments:

Anonymous said...

Kvitt!

Óli Sindri said...

Kvitt. Ég hef ekkert gáfulegra til málanna að leggja en það.